Lífið

Andlega sinnuð þjóð

Íslendingar hafa löngum verið andlega sinnaðir, segja má að flestir hafi áhuga á þýðingu drauma, við þekkjum öll einhverja sem séð hafa svipi, flestir þurfa sálarró, slökun og frið og nánast allir eru forvitnir um þessi málefni. Sálarrannsóknarfélag Seyðisfjarðar stendur fyrir ráðstefnunni "Á Sveimi" hér á Seyðisfirði 29. september til 1. október 2006.

Til stendur að ráðstefnan verði í senn vettvangur ýmiss konar fræðslu en ekki hvað síst samveru, til að kynnast hvað önnur félög og einstaklingar eru að gera og til þess að hafa gaman af. Dr. Erlendur Haraldsson prófessor, Dr. Björg Bjarnadóttir sálfr. og Þórhallur Guðmundsson miðill eru meðal þeirra er halda fyrirlestra á ráðstefnunni. Boðið verður upp á yoga og kynningar á starfsemi einstaklinga og félaga víða að af landinu. Þingið verður í senn faglegt og vísindalegt, umræður verða ríkur þáttur í dagskránni og gamanmálum verður skotið inn á milli. Þinginu er ætlað að ná til almennings með því að fá upp á borðið fjölbreyttari umræðu um efni sem ofangreindir fagmenn hafa rannsakað. Þingið verður umfram allt spennandi og skemmtileg samvera!

Kraftur og dulúð í hinum einstaka fjallasal er frábær umgjörð um góða samveru.

Sjá nánar á vefslóðinni http://www.seydisfjordur.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×