Lífið

Óútgefin bók verður aðgengileg 2,5 milljörðum manna

Ný glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur verður á næstu misserum aðgengileg tveimur og hálfum milljarði manna því bókaforlagið Veröld hefur gengið frá samningum um útgáfu á sögunni í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu, Grikklandi og Póllandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forlaginu.

Breska forlagið hefur sölurétt í gjörvöllu breska heimsveldinu, það bandaríska í allri Norður-Ameríku og spænska útgáfan kemur út í öllum spænskumælandi löndum heims. Bókin, sem hefur enn ekki fengið nafn, fjallar um óhugnanlegt morð á heilsuhóteli á Snæfellsnesi. Þetta er önnur glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur en Þriðja táknið eftir hana varð ein söluhæsta bók ársins 2005 hér á landi og fer nú á markað á 24 tungumálum í yfir eitt hundrað löndum í öllum byggðum heimsálfum veraldar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×