Lífið

Hádegistónleikar í Íslensku óperunni

Finnur Bjarnason tenór kemur fram á hádegistónleikum hjá Óperunni þriðjudaginn 10. október
Finnur Bjarnason tenór kemur fram á hádegistónleikum hjá Óperunni þriðjudaginn 10. október

Hádegistónleikaröð Íslensku óperunnar hefur fest sig í sessi sem einn af föstum dagskráliðum Óperunnar undanfarin ár og alls verða fimm hádegistónleikar á dagskránni í vetur.

Fyrstu hádegistónleikar vetrarins eru þriðjudaginn 10. október kl. 12.15. Finnur Bjarnason, tenór, og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó, flytja ljóð eftir Robert Schumann á tónleikunum. Finnur syngur um þessar mundir hlutverk Belmonte í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart í Óperunni, en Finnur er búsettur í Berlín og hefur sungið í fjölmörgum óperuuppfærslum víða um Evrópu á undanförnum árum. Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, hefur starfað á Íslandi í rúma tvo áratugi og komið fram á ótal kammertónleikum, en einnig sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tónleikarnir standa yfir í c.a 40 mínútur og er tilvalið fyrir þá sem starfa eða búa í miðbænum að taka sér örstutt frí frá dagsins önnum og líta inn í Óperuna í hádeginu og hlýða á ljúfa tóna. Samlokur og drykkir eru til sölu í anddyri Óperunnar bæði fyrir og eftir tónleikana og er því tilvalið fyrir gesti að slá tvær flugur í einu höggi og næra bæði líkama og sál á hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vetur. Nánari upplýsingar er að finna á Óperuvefnum www.opera.is.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×