Lífið

Tónar við hafið

Aðrir tónleikar í tónleikaröðinni "Tónar við hafið" verða í Þorlákshöfn miðvikudaginn 11. október. Á tónleikunum flytur jazzsveitin Póstberarnir tónlist Megasar í jazzútsetningum meðlima Póstbandsins. Jazzsveitina sem varð til fyrir Menningarnótt í Reykjavík árið 2004, er skipuð þeim Andrési Þór Gunnlaugssyni á gítar, Eyjólfi Þorleifssyni á tenorsaxófón og Ólafi Stolzenwald á kontrabassa. Með þeim spila á tónleikunum Agnar Már Magnússon á orgel og Erik Qvick á trommur. Yfirskrift tónleikanna er Tóneyra Megasar. Lögð er áhersla á tónsmíðar meistara Megasar en ekki texta eins og margir álíta hans sterkustu hlið. Um er að ræða skemmtilega nálgun við dægurtónlist, þar sem hún er færð í jazzbúning. Þannig er hlustandanum hleypt inn í heim jazztónlistarmannsins, þar sem viðfangsefnið er vel þekkt en fær alveg nýja nálgun. Texti laganna verður þó ekki langt í burtu, því honum ásamt teikningum Megasar, verður varpað á tjald á meðan lögin eru flutt.

Tónleikarnir verða í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss og hefjast klukkan 20:00. Nánari upplýsingar um tónleikana og Tóna við hafið er að finna á vef Sveitarfélagsins Ölfuss: www.olfus.is

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×