Lífið

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

"Handritið, sem er í senn heildstætt og fjölbreytt, felur í sér ferðasögu og ástarsögu. Ljóðmælandinn er ung kona sem heldur austur á land á æskuslóðirnar til að vera við jarðarför ömmu sinnar.
"Handritið, sem er í senn heildstætt og fjölbreytt, felur í sér ferðasögu og ástarsögu. Ljóðmælandinn er ung kona sem heldur austur á land á æskuslóðirnar til að vera við jarðarför ömmu sinnar.

Út er komin hjá Bjarti ljóðabókin Guðlausir menn - Hulgleiðingar um jökulvatn og ást eftir Ingunni Snædal. Ingunn hlaut á miðvikudaginn bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmunssonar fyrir handrit að bókinni.Dómnefndin valdi handrit Ingunnar úr fjörutíuogníu innsendum handritum og Bjartur fagnar þessari viðurkenningu á verkum skáldsins.

"Handritið, sem er í senn heildstætt og fjölbreytt, felur í sér ferðasögu og ástarsögu. Ljóðmælandinn er ung kona sem heldur austur á land á æskuslóðirnar til að vera við jarðarför ömmu sinnar. Í ljóðunum birtast okkur myndir af æsku hennar og heimabyggð, ást og samkynhneigð, fjölskyldu, samfélagi og þjóðlífi. Höfuðviðfangsefnin, ást og dauði, eru sígild, en um leið eru ljóðin sprottin beint uppúr samtíð okkar þar sem fyrir augu ber umdeildar virkjanaframkvæmdir, réttindi samkynhneigðra og dægurmenningu, auk þess sem smáskilaboð símans verða hér að nýju ljóðformi. Stíll ljóðanna er tær og einfaldur, skáldið talar beint til hjartans, hlífir hvorki sér né öðrum og gefur lesandanum jöfnum höndum af sárri reynslu og ljúfri."

Dómnefnd um verðlaunin skipuðu: Árni Sigurjónsson bókmenntafræðingur og formaður dómnefndar, Þorgerður E. Sigurðardóttir bókmenntafræðingur, og Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingur.

Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum, uppalin á Jökuldal og hefur búið á Spáni, Írlandi, í Kostaríku, Danmörku, veturlangt á Aran-eyjum út af vesturströnd Írlands og til skamms tíma í Mexíkó. Hún er menntuð í sveitaskólum, á heimavist á Eiðum, fjölbraut í Ármúla, HÍ og Kennaraháskólanum, þar sem hún var haldin námsleiða sem ól á vínhneigð hennar. Að námi loknu náði hún gleði sinni á ný og starfaði sem kennari, af hugsjón, í nokkur ár.

Auk þess að kenna íslensku, ensku og dönsku hefur Ingunn verið landpóstur, ráðskona í vegagerð, bensíntittur, hliðbjálfi, grúppía, rolluljósmóðir, skúringakona, eldabuska á leikskóla, starfsmaður á dönskum spítala, í írskum súpermarkaði, mexíkönskum tungumálaskóla, íslenskri rækjuvinnslu og verið á síldarvertíð.

Ingunn er alin upp í fimm systkina hópi og er miðbarnið (sem útskýrir margt fyrir þeim sem kunna hvar-í-systkina-röðinni-fræði). Hún er þó lítið gefin fyrir hópíþróttir. Ingunn er í meistaranámi í íslensku og hljóðfræði er henni hugfólgin.

Ingunn hefur áður sent frá sér ljóðabókina Á heitu malbiki árið 1995. GUÐLAUSIR MENN - HUGLEIÐINGAR UM JÖKULVATN OG ÁST er fyrsta bók hennar sem kemur út hjá Bjarti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×