Norður-Kóreumenn hóta frekari kjarnorkutilraunum ef Bandaríkin halda herskárri stefnu sinni gagnvart landinu til streitu. Frá þessu greina japanskir fjölmiðlar og hafa eftir Kim-Yong-nam, næstráðanda við Kim Jong-il, forseta landsins, að ef Bandaríkin haldi áfram að beita Norður-Kóreu þrýstingi muni stjórnvöld í Pyongyang svara því með áþreifanlegum aðgerðum.
Þetta eru fyrstu viðbrögð stjórnvalda í Norður-Kóreu frá því að þau greindu frá því á mánudag að þau hefðu sprengt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar áfram í dag um hugsanlegar refsiaðgerðir fyrir Norður-Kóreu vegna sprengingarinnar, en Bandaríkjamenn vilja meðal annars að hætt verði að selja Norður-Kóreumönnum hergögn og að fylgst verði náið með öllum inn- og útflutningi frá landinu.