Erlent

Yfirmaður breska heraflans vill kalla hermenn heim frá Írak

Richard Dannatt, herforingi og nýr yfirmaður breska heraflans, segir veru breskra hermanna í Írak auka á óstöðugleika í landinu og réttast væri að kalla þá alla heim. Þetta kemur fram í viðtali við hann sem birt verður í breska blaðinu Daily Mail í fyrramálið.

Dannatt, sem tók við nýju starfi í ágúst síðastliðnum, segir mikilvægt að kalla breska hermenn heim hið fyrsta þar sem vera þeirra í Írak tryggi ekki öryggi herliðs, lögreglu og almennra borgara í landinu. Dannatt tiltekur þó ekki hvenær réttast væri að draga herlið Breta til baka en segir mikilvægt að það gerist fyrr en seinna.

Um það bil 7000 breskir hermenn eru nú í Írak en Bretar hafa verið helstu bandamenn Bandaríkjamann í aðdraganda innrásarinnar í landið árið 2003 og síðan þá.

Dannatt segir ljóst að fjölþjóðlegu herliði hafi ekki verið boðið til landsins og múslimar æski ekki veru þess þar. Margir hafi þolað aðgerðirnar á sínum tíma en sú þolinmæði hafi nú þrotið hjá mörgum.

Í viðtalinu vill Dannatt ekki tengja ástandið í Írak við óhæfuverk víða um heim en segir þó að Íraksstríðið hafi ekki bætt ástandið.

Dannatt bætir því við að sér virðist sem áætlanagerð eftir vel heppnaða innrás hafi frekar byggt á óskhyggju en nokkru öðru.

Yfirlýsingar herforingjans eru algjörlega á skjön við stefnu breskra stjórnvalda í Írak og segja breskir stjórnmálaskýrendur þær afar óvenjulegar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×