Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur fyrirskipað rannsókn á meintri illri meðferð á föngum í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu eftir að fréttir bárust af því að fangaverðir stærðu sig af því að hafa barið og misþyrmt föngum þar.
Fram kemur á fréttavef BBC að liðþjálfi í sjóhernum bandaríska hafi heimsótt fangabúðirnar og skilið ummæli fangavarða þannig að það væri venja að berja til fanga í Guantanamo. Í yfirlýsingu liðþjálfans segir að hún hafi heyrt fangavörð lýsa því að hann hafi barið höfuð fanga við dyr á klefa hans.
Bandaríkjamenn hafa hafnað ákalli Margaretar Beckett, utanríkisráðherra Breta, um að loka fangabúðunum. Beckett er sá æðsti embættismaður Breta sem hefur sett þessa skoðun fram opinberlega. Mörg hundruð grunaðir hryðjuverkamenn eru í haldi í Guantanamo-fangabúðunum og hafa þeir ekki verið ákærðir.
Beckett segir fangabúðirnar gera jafn mikið fyrir málstað öfgamanna eins og gegn honum. Hún segir það óásættanlegt að halda mönnum áfram í fangabúðum án ákæru og að þeir fái að tala sínu máli fyrir dómstólum. Það samræmist ekki viðurkenndum mannréttindum og geri lítið í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Talsmaður Bandríkjastjórnar segir ráðamenn í Washington ósammála þessu. Þörf sé á búðunum því þar séu í haldi margir hættuelgir menn, þar á meðal þeir sem stóðu að baki hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september 2001.