Erlent

Sýknaður af ákæru um að rjúfa friðhelgi einkalífs Díönu og Dodis

Franskur dómstóll hefur sýknað breskan ljósmyndara af ákæru um að hafa skert friðhelgi einkalífs Díönu prinsessu af Wales og Dodi Fayeds. Jason Fraser tók myndir af parinu þar sem þau kysstust á snekkju við ítölsku Rívíeruna í ágúst árið 1997, nokkrum dögum áður en þau týndu lífi í bílslysi í París. Það var faðir Dodis, auðjöfurinn Mohamed Al Fayed, sem kærði Fraser. Dómsorð í málinu hefur enn ekki verið birt opinberlega.

Hægt var að höfða mál gegn ljósmyndaranum í Frakklandi þar sem ljósmyndirnar voru birtar í frönskum blöðum sem og í breskum götublöðum sem seld eru í Frakklandi. Eftir að niðurstaða dómara var kynnt í dag sagði Fraser að Mohamed Al Fayed gæti einn svarað því hvers vegna hann hefði ákveðið að leggja til svo mikið fé og verja svo miklu af sínum tíma í að sækja þetta mál og sverta mannorð sitt í leiðinni.

Saksóknari getur áfrýjað dómnum, sem og Mohamed Al Fayed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×