Erlent

Segir nægar vísbendingar til að ákæra Katsav

Ísraelska lögreglan telur nægilegar vísbendingar fyrir hendi til að ákæra Moshe Katsav, forseta landsins, fyrir nauðganir og önnur kynferðisbrot.

Í yfirlýsingu lögreglunnar frá því í gær kemur meðal annars fram að rökstuddur grunur sé fyrir því að Katsav hafi gerst sekur um nauðgun, kynferðislega áreitni, umboðssvik og símahleranir, bæði í forsetatíð sinni og á meðan hann var ráðherra í ísraelsku ríkisstjórninni á tíunda áratugnum.

Tíu konur eru sagðar hafa orðið fyrir barðinu á honum, þar af á tveimur þeirra að hafa verið nauðgað. Ríkissaksóknari mun á endanum taka ákvörðun um hvort Katsav verði ákærður en til að það geti orðið verður ísraelska þingið, Knesset, að svipta forsetann friðhelgi sinni.

Þingið kom saman að nýju í morgun eftir sumarleyfi. Katsav var þar hvergi sjáanlegur enda höfðu margir þingmenn hótað að sniðganga athöfnina ef hann væri viðstaddur.

Katsav, sem er 61 árs og hefur verið forseti frá árinu 2000, hefur neitað allri sök og sagt málið runnið undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna. Ef hann verður ákærður verður hann að öllum líkindum að segja af sér embætti enda eru ásakanirnar með þeim alvarlegustu sem ísraelskur leiðtogi hefur verið borinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×