Saksóknari í Rússlandi hefur greint frá því að tilteknir ónafngreindir menn séu grunaðir um morðið á einum æðsta stjórnanda Seðlabankans rússneska. Rússenskir fjölmiðlar segja þrjá Úkraínumenn í haldi lögreglu vegna málsins. Talið er að morðið tengist hertum aðgerðum hans gegn peningaþvætti í landinu.
Andrei Kozlov, sem var 41 árs, var skotinn fyrir utan íþróttaleikvang þann 13. september sl. Hann var þegar fluttur á sjúkrahús og reyndu læknar hvað þeir gátu til að bjarga lífi hans, en án árangurs. Bílstjóri Kozlovs lést í árásinni. Að minnsta kosti tveir grímuklæddir menn eru sagðir hafa skotið á bíl sem Kozlov og bílstjóri hans sátu í.
Yfirvöld hafa ekki viljað staðfesta fréttir rússneskra fjölmiðla um að þrír Úkraínumenn hafi verið handteknir en segjast hafa tiltekna menn grunaða. Einhverjir þeirra hafi skipulagt ódæðið og aðrir framið það - líkast til leigumorðingjar.