Erlent

Gvatemala hefur áfram forskot á Venesúela

Jorge Valero, vara-utanríkisráðherra Venesúela, greiðir landi sínu atkvæði á Allsherjarþingi SÞ í dag.
Jorge Valero, vara-utanríkisráðherra Venesúela, greiðir landi sínu atkvæði á Allsherjarþingi SÞ í dag. MYND/AP

Gvatemala hefur áfram forskot á Venesúela í atkvæðagreiðslu um sæti til 2 ára í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Atkvæði voru greidd milli ríkjanna 10 sinnum í gær en þá var atkvæðagreiðslu frestað til morguns. Aftur var tekið til óspilltra málanna í dag og heldur Gvatemala áfram forskoti sínu en nær þó ekki 2/3 atkvæða Allsherjarþingsins sem þarf til að hreppa hnossið.

Sérfræðingar telja ólíklegt að Gvatemala eða Venesúela náið um 125 atkvæðum sem þarf og því þurfi ríki rómönsku Ameríku að finna annað ríki sem sátt náist um.

Niðurstaðan í gær og í dag er túlkuð sem mikið áfall fyrir Hugo Chavez, forseta Venesúela, sem hefur barist gegn stefnu Bandaríkjastjórnar og kallað Bush Bandaríkjaforseta djöfulinn. Talið er að sú framkoma hafi skaðað málstað landsins og dregið úr sigurlíkum. Bandarískir stjórnmálamenn sem áður studdu Chavez snerust jafnvel gegn honum vegna ræðu hanns á Allsherjarþinginu í síðasta mánuði þar sem hann líkti Bandaríkjaforseta við þann vonda.

Ráðamenn í Gvatemala og Venesúela vilja ekki draga sig í hlé og ætla að berjast fyrir sætinu þar til yfir ljúki. Óvíst er hve langur tími mun líða þar til niðurstaða fæst í málið. Ekki er þó talið líklegt að það taki jafn langan tíma og árið 1979 þar valið stóð á milli Kólumbíu og Kúbu. Ekki fekkst niðurstaða þá í 154 atkvæðagreiðslum. Þegar greitt voru atkvæði í 155. sinn tók Mexíkó þátt í slagnum og hafði sigur.

Venesúela hefur setið fjórum sinnum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en Gvatemala hefur aldrei haft fulltrúa þar þrátt fyrir að hafa lagt til fjölmarga hermenn í ýmis friðargæsluverkefni á vegum SÞ síðustu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×