Erlent

Þungt haldinn eftir árás stingskötu

Rúmlega áttræður Bandaríkjamaður liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi á Flórída eftir að stingskata stökk um borð í bát hans og stakk hann í bringuna.

Fram kemur á fréttavef BBC að barnabarn mannsins og vinur fluttu hann á land eftir árásina en þau voru með honum um borð í bátnum þegar skatan stakk hann.

Það var í síðasta mánuði sem heimsfrægi sjónvarpsmaðurinn Steve Irwin, stundum kallaður "krókódílafangarinn", lést þegar stingskata stakk hann í hjartastað. Irwin var þá við tökur og var að kafa undan strönd Queensland í Ástralíu.

Yfirvöld á Flórída segja árásina á gamla manninn, James Bertakis, vekja óhug og koma óþægilega á óvart. Ótrúlegt sé að skatan hafi stokkið upp í bátinn og stungið hann.

Hluti gaddsins af stingskötunni sat fastur í brjóstkassa mannsins og hefur læknum nú tekist að fjarlægja hann að mestu. Skatan drapst um borð í bátnum eftir að hún hafði stungið Bertakis.

Skötur af þessari gerð eru þríhyrningslaga fiskar. Nafnið draga þær af gadd sem stendur út af hala þeirra. Hann er hjúpaður eiturefni og nota sköturnar hann til varnar telji þær sér ógnað. Árásir á fólk eru afar sjaldgæfar að sögn vísindamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×