Erlent

Reyndu að flýja úr fangelsi í Egyptalandi

Þrír menn sem eru í haldi yfirvalda í Kaíró í Egyptalandi, grunaðir um aðild að sprengjuárásum á þrjá ferðamannastaði við Rauðahafið í október 2004, reyndu að flýja úr fangelsi í dag. Það tókst ekki og slasaðist einn þremenninganna. Mennirnir höfðu bundið saman föt og reyndu að klifra yfir fangelsisveggina.

10 menn hafa verið ákærðir fyrir aðild að sprengjuárásunum sem kostuðu á fjórða tug manna lífið. Þrír til viðbótar hafa verið dæmdir til dauða vegna málsins. Þeir neituðu sök og sögðu játningu fengna fram með pyntingum.

Einn þremenninganna sem reyndu að flýja í dag, það er sá sem slasaðist, er einnig grunaður um aðild að árás á ferðamannastaðinn Dahab við Rauðahafið fyrr á þessu ári sem kostaði 20 manns lífið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×