Lífið

Borgarstjórinn opnar sölu á rauðum nefjum

Í dag, mánudaginn 13. nóvember kl. 11:00, mun Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri , ásamt allri borgarstjórn, leggja sitt af mörkum og kaupa rauð trúðanef. Með þessu opnar borgarstjórn formlega söluna á rauðu nefjunum í borgarstjórnarsalnum, Ráðhúsi Reykjavíkur.

Allur ágóði af sölu rauðu nefjanna rennur til verkefna Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem vinnur með bágstöddum börnum um allan heim. Rauðu nefin koma í allar verslanir Bónuss, 10-11, útibú Glitnis og á bensínstöðvar ESSO í dag og kosta 500 krónur. Sala nefjanna er hluti af Degi rauða nefsins sem haldinn verður hátíðlegur þann 1. desember. Nánari upplýsingar um Dag rauða nefsins á www.rauttnef.is.

Um UNICEF

Í 60 ár hefur Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna eða UNICEF verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn. UNICEF starfar á vettvangi í nær 160 löndum og svæðum og stendur vörð um líf barna frá fæðingu til fullorðinsára. UNICEF útvegar flestar bólusetningar til barna í þróunarlöndunum, styður heilsugæslu- og næringarverkefni fyrir börn, veitir börnum menntun og vernd gegn ofbeldi, misnotkun og HIV/alnæmi. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög einstaklinga, fyrirtækja og ríkisstjórna. Með því að kaupa rauð trúðanef styrkir fólk mikilvæg verkefni UNICEF og gleður þar með börn um allan heim um leið og rauðu nefin gleðja alla þá sem setja það upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×