Erlent

Rússnesk stjórnvöld neita aðild

Líðan rússneska njósnarans Alexanders Litvinenko fer hrakandi en eitrað var fyrir hann á veitingastað í Lundúnum á dögunum. Nánir vinir hans telja fullvíst að stjórnvöld í Moskvu hafi staðið á bak við tilræðið.

Litvinenko liggur nú á milli heims og helju á gjörgæsludeild University College-sjúkrahússins í Lundúnum en þangað var hann fluttur í gærkvöldi eftir að líðan hans hrakaði enn frekar. Læknar segja aðeins helmingslíkur á að hann nái heilsu á ný.

Þessi fyrrverandi KGB-maður sem á sínum tíma flýði til Bretlands var að rannsaka morðið á blaðakonunni Önnu Politkovskaju þegar honum var byrlað eitrið þallíum, líklega á japönskum sushi-stað í miðborg Lundúna.

Bæði Politkovskaja og Litvinenko voru í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, og því hallast nánir vinir hans að því að rússneska leyniþjónustan hafi staðið á bak við tilræðið. Í þeim hópi er auðkýfingurinn Boris Berezovsky sem Litvinenko fletti á sínum tíma ofan af samsæri um að myrða eftir að hann komst í ónáð hjá Pútín.

Talsmaður rússneskra stjórnvalda sagðist í dag ekki vilja tjá sig um þessar kenningar þar sem þær væru alger þvættingur. Þótt erfitt geti reynst að sanna nokkuð í þessum efnum er hitt víst að rússneska leyniþjónustan hefur í gegnum tíðina gripið til ýmissa óyndisúrræða, allt frá því að Leon Trotský var myrtur með ísöxi í Mexíkó 1940 þar til búlgarski blaðamaðurinn Georgi Markov var stunginn með eitraðri regnhlíf í Lundúnum 1978. Þá má ekki gleyma úkraínska forsetanum Viktor Jústjenkó en skömmu fyrir kosningarnar 2004 fékk hann heiftarlega díoxíneitrun sem sögð var á ábyrgð Kremlverja eða úkraínskra bandamanna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×