Innlent

Fjármunir af söluandvirði Símans fluttir milli ára

Fjármunum af söluandvirði Landssímans sem verja átti til gerðar Sundabrautar seinkar að hluta um eitt ár samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Upphaflega var áætlað að verja einum og hálfum milljarði króna til verksins á næst ári og 2,5 milljörðum árið 2008 en samkvæmt frumvarpinu verður aðeins 100 milljónum króna varið til Sundabrautar á næsta ári og 3.900 milljónum króna árið 2008.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að 600 milljónum króna sem verja átti til gatnamóta við Nesbraut á næsta ári verði skipt á tvö ár, þ.e. 400 milljónir á næsta ári og 200 milljónir árið 2008. Í þriðja lagi er lagt til að til Tröllatunguvegar um Arnkötludal verði varið 200 milljónum króna árið 2007 og 600 milljónum árið 2008 í stað 400 milljóna hvort ár. Í fjórða lagi er svo lagt til að áður ákveðið 300 milljóna króna framlag til Norðausturvegar fyrir árið 2007 verði fært yfir á árið 2008 og verður framlag þess árs þá 700 milljónir króna.

Þá er lagt til í frumvarpinu að þeim þremur milljörðum króna sem verja á til kaupa eða leigu á eftirlitsflugvél og fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna verði varið þannig að 500 milljónir falli á þessu ári 2006, annað eins á næsta ári og tveir milljarðar árið 2008. Þá er enn fremur lagt til að hálfs milljarðs króna framlag í Fjarskiptasjóð falli á þessu ári í stað næsta árs.300 milljóna króna framlag

til Nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða fyrir árið 2007 verður auk þess fært yfir á árið 2008 ef frumvarpið verður samþykkt og falla því samtals 600 milljónir króna til verkefnisins það ár.

Í frumvarpinu er því samtals lagt til að 2,4 milljarðar af Landssímafénu sem ráðstafa átti á næsta ári verði fluttir til ársins 2008 og einn milljarður sem ráðstafa átti á næsta ári falli til á þessu ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×