Erlent

Tugir rússneskra njósnara starfa í Bretlandi -myrða og kúga

Rússneskir njósnarar, í Bretlandi, eru jafn virkir og þeir voru meðan kalda stríðið stóð sem hæst, að sögn bresku leyniþjónustunnar. Leyniþjónustan telur líklegast að launmorðingjar í þjónustu rússneskra stjórnvalda hafi myrt fyrrverandi KGB manninn Alexander Litvinov, sem lést í Lundúnum fyrir tíu dögum.

Breska blaðið Daily Telegraph hefur eftir heimildarmönnum sínum innan ríkisstjórnarinnar, að á fundi hinnar svokölluðu Cobra nefndar ríkisstjórnarinnar, í síðustu viku, hafi ráðherrum verið skýrt frá því að yfir þrjátíu njósnarar rússnesku leyniþjónustunnar starfi í landinu. Það sé einn af hverjum fimm opinberum rússneskum starfsmönnum í Bretlandi. Aðeins í Bandaríkjunum séu fleiri rússneskir njósnarar.

Hlutverk þessara njósnara er meðal annars að fylgjast með landflótta Rússum sem eru andstæðingar Vladimirs Putins, forseta. Þeir reyni einnig að veiða breska kaupsýslumenn, vísindamenn og þingmenn í net sitt, til þess að stela viðskipta- og ríkisleyndarmálum.

Ógnin er talin svo alvarleg að breska leyniþjónustan MI5, hefur varað hátt setta kaupsýslumenn í stórum fyrirtækjum við því að Rússar kunni að reyna að ná tangarhaldi á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×