Ísraelsher sagðist meðal annars hafa hæft hundruð eldflaugastæða, sem Hezbollah hefði ætlað að nota í náinni framtíð. Reuters hefur eftir heimildarmönnum í Líbanon að um hafi verið að ræða umfangsmestu loftárásir Ísraela gegn Hezbolla frá því að átök brutust út 7. október í fyrra.
Nasrallah hótaði, sem fyrr segir, hefndum gegn Ísrael í gær, „þar sem menn ættu von á því og þar sem menn ættu ekki von á því“. Alls 37 létust og um 3.200 slösuðust þegar símboðar og talstöðvar notaðar af Hezbollah sprungu á þriðjudag og miðvikudag.
Börn voru meðal látinna og slasaðra.
Ísraelar hafa ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en höfðu áður gefið það út að markmið þeirra í yfirstandandi hernaðaraðgerðum hefðu verið útvíkkuð frá því að tortíma Hamas á Gasa og miðuðu nú einnig að því að koma íbúum í norðurhluta landsins aftur heim, sem hefðu þurft að flýja vegna árása Hezbollah.
Nasrallah viðurkenndi að sprengingarnar í vikunni hefðu verið mikið áfall fyrir Hezbollah. Hann sagði að farið hefði verið yfir allar „rauðar línur“, lög og siðferði.
Háttsettir sendifulltrúar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Ítalíu funduðu í París í gær. Von er á Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þangað í dag en hann hefur dvalið í Kaíró að ræða mögulegt vopnahlé á Gasa.
Talsmaður Joe Biden Bandaríkjaforseta sagði forsetann enn telja möguleika á að ná fram vopnahléi en Hvíta húsið hefur varað alla aðila við því að grípa til stigmögnunar. Ástandið er þó afar viðkvæmt eftir sprengingarnar í vikunni og yfirlýsingar Ísraels um „nýjan fasa“ hernaðaraðgerða.