Innlent

Segir borgarstjóra tvísaga í lóðakaupamáli

Oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur segir borgarstjóra tvísaga um þátt sinn í kaupum borgarinnar á fjórum hekturum í Norðlingaholti sem voru í eigu Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Málavextir eru með þeim hætti að í tíð Þórólfs Árnasonar, fyrrverandi borgarstjóra R-listans, krafðist Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins 110 milljóna fyrir fjögurra hektara land sitt í Norðlingaholti. Þáverandi borgarstjóri neitaði að gangast að því fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Eftir árangurslausar viðræður var farið í eignarnám og í mars síðastliðnum var verðmæti lóðar Kjartans 208 milljónir króna að mati matsnefndar eignarnámsbóta. Þann 6. apríl síðastliðinn lagði skrifstofustjóri lögfræðisviðs borgarinnar, Kristbjörg Stephensen, til að höfðað yrði mál til að hnekkja úrskurði matsnefndarinnar á þeim forsendum að kröfur væru alltof háar.

Vilhjálmur Þ. Vihjálmsson borgarstjóri lagði fram minnisblað fyrir borgarráð í gær þar sem hann telur að borgin eigi að una matinu og ekki höfða dómsmál heldur fylgja úrskurði matsnefndarinnar um að greiða 208 miljónir fyrir lóð Kjartans.

Þetta segir oddviti Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson, ganga í berhögg við tillögur skrifstofustjóra lögfræðisviðsins. Ekki náðist í borgarstjóra vegna málsins í morgun en rætt verður við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×