Erlent

54 týnt lífi í 3 eldsvoðum í Rússlandi

Eldar kviknuðu í tveimur heilbrigðisstofnunum í Rússlandi í nótt. 9 týndu lífi á geðsjúkrahúsi í Síberíu en öllum var bjargað frá bráðum bana af sams konar sjúkrahúsi norðvestur af Moskvu. 54 hafa því týnt lífi í eldum á sjúkrahúsum í Rússlandi um helgina.

Það var rétt eftir miðnætti í nótt sem elds varð vart á geðsjúrkahúsi í bænum Taiga í miðri Síberíu. Ekki tókst að bjarga öllum sjúklingum og týndu 9 þeirra lífi en 15 til viðbótar brenndust illa. Rúmlega 220 sjúklingar og starfsmenn voru í byggingunni þegar eldurinn kviknaði.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum reyndu starfsmenn á sjúkrahúsinu að slökkva eldinn sjálfir en þegar það gekk ekki var kallað eftir aðstoð slökkviliðs, einni og hálfri klukkustund eftir að eldsins varð vart. Þá voru sjúklingar fluttir úr rúmum sínum á náttklæðunum einum fata út í hríðarbyl á sama tíma og eldurinn læsti sig í öðrum hlutum byggingarinnar. Yfirvöld segja ekki hægt að útiloka að eldur hafi verið lagður að sjúkrahúsinu.

Eldur kviknaði skömmu síðar í öðru geðsjúkrahúsi nærri þorpinu Troyanova í Tver héraði, um 200 kílómetra norð-vestur af Moskvu. Slökkvilið var þegar kallað vettvang og gekk greiðlega að rýma bygginguna, þar sem 300 sjúklingar dvelja. Engan sakaði. Ekki er vitað hvort eldurinn þar hafi kviknað að mannavöldum.

Eldar hafa því kviknað á þremur sjúkrahúsum á tæpum sólahring um helgina. Í fyrrinótt týndu 45 konur lífi þegar eldur kviknaði í sjúkrahúsi í höfuðborginni Moskvu. Talið er að kveikt hafi verið þar í.

Sérfræðingar segja þessa bruna undirstrika að bæta þurfi brunavarnir í byggingum í Rússlandi þar sem um átján þúsund Rússar týna lífi eldsvoðum þar í landi á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×