Erlent

Verdi í gallabuxum

Robert Alagna, óperusöngvari.
Robert Alagna, óperusöngvari.

Franski tenórinn Roberto Alagna stormaði af sviðinu á Scala óperunni í Milanó í gær, eftir að hópur áhorfenda púaði á hann. Þetta gerðist í miðjum flutningi á óperunni Aidu, eftir Verdi. Púið var ekki vegna þess að Alagna stæði sig illa, heldur til þess að lýsa vanþóknun á þeim ummælum hans að áhorfendurnir í Scala óperunni væru erfiðir og duttlingafullir.

Alagna hefur stundum verið kallaður fjórði tenórinn og arftaki Pavarottis. Þegar hann stormaði af sviðinu stóð mótleikari hans eftir og hélt áfram í einsöng á dúettinum sem þeir áttu að syngja saman. Varaleikari Alagnas var þá drifinn inn á sviðið, og það með svo miklum látum að hann byrjaði að syngja í gallabuxum og svartri skyrtu, þartil ráðrúm gafst til þess að klæða hann í búning. Í lok sýningarinnar stóð lófatakið í níu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×