Erlent

Er morðinginn á bláum BMW?

Breska lögreglan leitar nú að feitlögnum manni á bláum BMW sem er sagður hafa tekið eina af myrtu vændiskonunum í Ipswich upp í bílinn hjá sér og ekið með hana á brott. Lögreglan segist hafa býsnin öll af upplýsingum til þess að vinna úr.

Fimm vændiskonur hafa nú fundist myrtar og tveggja til viðbótar er saknað. Lögreglan er ekki í neinum vafa um að þarna sé einn raðmorðingi að verki. Hún er meðal annars að kanna framburð vændiskonu sem gengur undir nafninu Lou.

Hún segir að hún hafi séð eina vændiskvennanna sem myrt var, Anneli Alderton, fara upp í bláa BMW-bifreið. Ökumaðurinn hafi verið feitlaginn, dökkhærður með gleraugu. Eftir það spurðist ekkert til hennar fyrr en hún fannst myrt, 10. desember.

Breska þjóðin er slegin óhug yfir þessu máli og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur sent fjölskyldum hinna myrtu vændiskvenna samúðarkveðjur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×