Erlent

Ísbjörn í stofunni

Tveir rússneskir veðurfræðingar földu sig í ruslageymslu í tvo sólarhringa, meðan stór og hungraður ísbjörn rústaði kofa þeirra í leit að mat. Björninn át meðal annars tvo af hundum þeirra.

Eftir tvo sólarhringa, þegar björninn sýndi ekki á sér neitt fararsnið, komu Rússarnir úr fylgsni sínu og skutu hann til bana. Veðurstöðin er í Chukota héraði í norðausturhluta Rússlands. Þar eru nú nærri 200 ísbirnir fastir, vegna óvenju mikilla hlýinda.

Ísinn er ekki nógu þykkur til þess að bera birnina á nýjar veiðislóðir, og því vafra þeir um svangir og viðskotaillir, í leit að æti. Fólk á þessu svæði er varað við að vera á ferð utandyra, eða fara út úr bílum sínum ef það er á ferðalagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×