Erlent

Eignaðist þríbura úr tveimur legum

Tuttugu og þriggja ára gömul bresk kona eignaðist nýlega þríbura sem hún hafði gengið með í tveimur legum. Úr öðru leginu komu eineggja tvíburasystur og ein stúlka úr hinu. Líkurnar á að þetta gerist eru sagðar einn á móti tuttugu og fimm milljónum.

Ekki er svo óalgengt að konur séu með tvö leg. Ein af hverjum eittþúsund konum í Bretlandi er með tvö leg. Hinsvegar er ekki vitað til þess að nema sjötíu konur í heiminum hafi orðið ófrískar í báðum legum samtímis. Og að eignast þríbura úr tveimur legum er einstæður atburður.

Í þessu tilfelli urðu börnin til úr tveimur eggjum, einu í hvoru legi. Þau voru frjóvguð af tveim sæðisfrumum. Annað eggið skipti sér svo í tvennt og varð að eineggja tvíburum, en hitt varð að einu barni. Móður og börnum heilsast vel.

Þess má geta að sjónvarpsþættinum Greys Anatomy kom við sögu kona sem var með tvö leg og ófrísk í báðum. Og það sem meira var börnin höfðu komið undir með margra vikna millibili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×