Erlent

Lögreglusveit handtekin

Breskir hermenn handtóku í dag foringja lögreglusveitar og fjölmarga undirmenn hans, en sveitin er grunuð um að hafa myrt sautján manns í fyrirsát í grennd við borgina Basra, síðastliðinn sunnudag.

Lögreglumennirnir tilheyra sérsveit sem á að fást við alvarlega glæpi. Talsmaður breska hersins sagði að þessi sveit hefði lengi verið til vandræða, og hún yrði nú leyst upp.

Eitt vandamálið sem við er að etja í Írak er að hryðjuverkamenn láta skrá sig í öryggissveitir, og eru þar í góðri aðstöðu til þess að afla upplýsinga og fremja ódæðisverk.

Engu skoti var hleypt af þegar bresku hermennirnir vöktu lögreglumennina af værum svefni, fyrir dögun í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×