Erlent

Ísbirnir í útrýmingarhættu vegna bráðnunar íss

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur lagt til að ísbirnir verði settir á válista yfir dýr sem eru í útrýmingarhættu. Mikil ísbráðnun við norðurskautið veldur því að heimkynni bjarnanna eru nú óðum að hverfa.

Hvítabirnir hafa hingað til unað hag sínum bærilega á ísbreiðunum við Norðurskautið. Stærstur hluti stofnsins býr í Noregi og á Grænlandi - og þaðan flækjast einmitt bjarndýr hingað til lands með rekís - en þá er einnig að finna í Kanada og Alaska. Undanfarna áratugi hefur ísbjörnum aftur á móti fækkað nokkuð, meðal annars vegna veiða og mengunar. Og á síðustu árum hefur ný og uggvænlegri ógn bæst við, sjálf heimkynni bjarnanna eru að hverfa vegna þess að heimskautaísinn bráðnar svo hratt.

Af þessum sökum leggur ríkisstjórn Bandaríkjanna nú til að hvítabirnir verði settir á válista yfir dýr í útrýmingarhættu. Það þýðir til dæmis að við olíu- og gasvinnslu verður framvegis að gæta þess að aðhafast ekkert sem ógnar tilveru bjarnanna.

Bandarísk stjórnvöld hafa fram til þessa ekki viljað taka þátt í aðgerðum við að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það gæti nú verið að breytast því rétt eins og dropinn holar Norðurskautsísinn, þá holar hann víst steininn líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×