Breytt viðhorf til einkareksturs

Sighvatur segir fá íslensk fyrirtæki hafa áhuga á fjárfestingum í þróunarlöndunum. Þau sækist fremur eftir útrás til landa sem þau þekkja vel. Íslensk fyrirtæki sem hafa þekkingu og reynslu af að starfa í þróunarlöndunum séu til, en þau séu mjög fá. Hins vegar séu tækifærin mörg ekki síst meðal fyrirtækja sem starfa á sviði nýtingar á jarðhita, þar sem Íslendingar hafa sérþekkingu. Þá séu jafnframt tækifæri og töluverður áhugi fyrir hendi í sjávarútvegi.
Misgóður árangur af samstarfiRagna Sara Jónsdóttir, viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í Danmörku og mastersnemi í viðskipta- og þróunarfræðum við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, vinnur nú að lokaverkefni sínu. Þar ber hún meðal annars saman reynslu Dana af þróunaraðstoð við reynslu Íslendinga. Danir hafa öðlast töluvert djúpstæðari reynslu af þróunarmálum en Íslendingar, að minnsta kosti er varðar samstarf við einkageirann. Ragna Sara segir þrenns konar leiðir að samstarfi einkageirans og hins opinbera hafa verið farnar þar með misgóðum árangri.
Fyrsta tegund samvinnu sem hún nefnir er uppbygging einkageirans. Þess konar verkefni stuðla að því að fyrirtæki í gjafalandi annars vegar og þróunarlandi hins vegar stundi viðskipti sín á milli. Slík verkefni hafa reynst misjafnlega vel. Meðal annars hefur flutningur þekkingar ekki gengið vel í ákveðnum Afríkulöndum. Það skrifast meðal annars á að ekki hefur verið nægilega mikil þekking á viðskiptaháttum í landinu. Í Danmörku og víðar hefur þetta kerfi líka verið gagnrýnt fyrir að virka frekar sem styrkur við dönsk fyrirtæki til útrásar heldur en við fyrirtækið í þróunarlandinu.
Vandamál þessarar tegundar samvinnu eru að sjaldgæft er að fyrirtæki sjái sér hag í þessari tegund af samstarfi. Á undanförnum árum hefur því svokallað Public Private Partnership verið að ryðja sér til rúms. Í þeim tilfellum er ekki verið að biðja fyrirtæki að gefa neitt, hvorki þekkingu sína né fjármuni. Hugmyndin er þvert á móti að allir græði. Ragna Sara nefnir frægt dæmi af samstarfi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega risans Coca Cola Company. Fyrirtækið hefur gríðarlega gott dreifikerfi í Afríku.
Fyrirtækið tók að sér að dreifa eyðnilyfjum með Coke-bílnum. Með því bætti fyrirtækið ímynd sína verulega, afskekktir staðir fengu eyðnilyf og allir högnuðust.
Þriðja tegund samvinnu er stofnsetning sjóðs sem lánar fyrirtækjum fé til að hefja starfsemi í þróunarlöndunum. Slíkur sjóður hefur verið starfræktur frá því árið 1967 í Danmörku. Eins sjóði er einnig að finna á hinum Norðurlöndunum en ekki hér á landi. Íslensk fyrirtæki geta þó meðal annars leitað til Norræna þróunarsjóðsins og Þróunarbanka Evrópu eftir áhættufjármagni. Sjóðirnir veita ekki einungis lán heldur einnig ráðgjöf um hvernig eigi að stofna fyrirtæki í þróunarlöndum. Þá eiga þeir jafnan stóran hlut í fyrirtækinu sjálfir á upphafsstigi þess og veita því aðhald með stjórnarsetu.
Ragna Sara segir að þróunaraðstoð þurfi umfram allt að veita á forsendum heimamanna. „Reynslan sýnir að þróunaraðstoð fer út um þúfur ef hún er gerð á okkar vestrænu forsendum. Tækifærin til að markaðssetja og þróa vörur í þróunarlöndunum eru fjölmörg. Vandamálið er að vestræn fyrirtæki hafa svo takmarkaða þekkingu á mörkuðunum að mörg þeirra hafa hingað til ekki getað leitað tækifærin uppi, en á þessu eru að verða verulegar breytingar."
Tvö ný verkefni á ÍslandiÍslensk stjórnvöld vinna nú að tveimur verkefnum þar sem leitast er við að tengja fyrirtæki við verkefni í þróunarlöndunum. Annars vegar er um samstarf við Alþjóðabankann að ræða. Bankinn lánar á milli 15 til 20 milljarðar Bandaríkjadala ár hvert til ríkisstjórna þróunarríkja til að fjármagna þróunar- og uppbyggingarverkefni. Hann ræður ráðgjafa til starfa í verkefnum sínum á mismunandi stöðum í verkefnahringnum, allt frá því að skilgreina verkefnið, greina það, framkvæma, meta og fylgja því eftir. Í þessi verkefni þarf bankinn sérfræðinga af hinum ýmsu sviðum.
Íslensk fyrirtæki hafa hingað til að litlu leyti tekið þátt í verkefnum og útboðum Alþjóðabankans en gefst með samstarfinu tækifæri til að kynnast ráðgjafa Alþjóðbankans á námskeiðum og kynningarfundum.
Hins vegar er um að ræða verkefnið Nordic Business Outreach sem skrifað var undir 17. apríl síðastliðinn milli utanríkisráðuneytisins og Sameinuðu þjóðanna. Í gegnum það samstarf hefur Ísland aðgang að ráðgjöf sérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum. Stefnt er að því að á næstu þremur árum verði fimm samstarfsverkefnum komið á fót við íslensk fyrirtæki, stofnanir og samtök sem miða að uppbyggingu á raunhæfu samstarfi opinberra aðila og einkageirans í þróunarríkjum. Verkefnið er til þriggja ára og nemur stuðningur ráðuneytisins í heild 150 þúsund bandaríkjadölum eða um 9,3 milljónum íslenskra króna.