Skoðun

Velkomnir í hópinn HR-ingar

Í Fréttablaðinu laugardaginn 9. júní ritaði Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, grein í tilefni af fyrstu útskrift lögfræðinga frá Háskólanum í Reykjavík. Ástæða er til að samfagna Davíð Þór og öðrum kennurum við skólann með þann merka áfanga - og ekki síst þeim stúdentum sem luku lagaprófi þetta sinn.

Í greininni heldur Davíð því fram að Háskólinn í Reykjavík hafi verið að útskrifa fyrstu lögfræðingana með fullnaðarpróf í lögfræði utan HÍ nú á dögunum. Þetta kemur reyndar oftar en einu sinni fram í grein Davíðs, meðal annars er yfirskriftin í þessa veru og talað um að þar til HR hóf lagakennslu hafi HÍ setið einn að slíkri menntun hér á landi. Þessar fullyrðingar Davíðs eru með nokkrum ólíkindum og koma verulega á óvart í ljósi þess að í ársbyrjun 2006 var hópur lögfræðinga útskrifaður með fullnaðarpróf í lögum frá Háskólanum á Bifröst og hafa reyndar fleiri bæst í þann hóp síðan. Þessir lögfræðingar hafa sumir hverjir nú þegar gengist undir próf til málflutningsréttinda og náð því með láði. Þeim og öðrum úr þessum hópi hefur vegnað vel á vinnumarkaði lögfræðinga. Það sætir furðu að Davíð Þór sem hefur um árabil starfað við lögfræðikennslu, viti ekki af þessum hópi, en ekki vil ég ætla honum að tala gegn betri vitund. Undir slíkri hagræðingu á staðreyndum verður hins vegar ekki setið þegjandi og því er þessari athugasemd komið á framfæri.

Ég vil í lokin óska lagadeild Háskólans í Reykjavík innilega til hamingju með þann árangur að hafa útskrifað sína fyrstu lögfræðinga með meistaragráðu. Ég efast ekki um að sá hópur og þeir sem í kjölfarið koma eigi eftir að auðga stétt íslenskra lögfræðinga, rétt eins og Bifrestingarnir hafa gert sem nú hafa lokið slíkri gráðu.

Höfundur er forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×