Fótbolti

Þetta var ekkert stelpumark

Dóra Stefánsdóttir leikmaður Malmö
Dóra Stefánsdóttir leikmaður Malmö

Landsliðskonan Dóra Stefánsdóttir skoraði eitt af mörkum ársins í sænska kvennaboltanum þegar hún innsiglaði 4-0 sigur Ldb Malmö á Hammarby í fyrradag. Á heimasíðu Malmö segir að annað eins mark hafi ekki sést á IP-leikvanginum frá því 1994, þegar gamla kempan Malin Lundgren skoraði fyrir karlalið félagsins í ónefndum leik.

„Þetta var sannkallað draumamark, líklega það besta sem ég hef skorað á mínum ferli," sagði Dóra við Fréttablaðið í gær.

Markið skoraði hún af rúmlega 20 metra færi en eftir þunga sókn Malmö barst boltinn út fyrir teig þar sem landsliðskonan kom aðvífandi og lét vaða á markið. „Ég hef sjaldan hitt boltann eins vel. Þetta var þrumuskot með ristinni og boltinn endaði í samskeytunum. Þetta var ekkert stelpumark," sagði Dóra hlæjandi en viðurkenndi þó að um algjöra heppni hefði verið að ræða. „Ég mun líklega ekki skora annað svona mark í bráð."



Með sigrinum náði Malmö að færast nær toppliði Umea og er nú með 32 stig í þriðja sæti. Djurgarden er stigi ofar í öðru sæti en Umea er á toppnum með 36 stig. „Það munar ekki svo miklu og við erum ennþá í bullandi séns. Það er líka alltaf skemmtilegra að spila þegar spennan er til staðar," segir Dóra en Malmö hefur komið nokkuð á óvart það sem af er leiktíð eftir að hafa verið spáð 5. sæti fyrir tímabilið. Dóra og félagi hennar úr íslenska landsliðinu, Ásthildur Helgadóttir, hafa átt stóran þátt í velgengni liðsins í ár en þurfa að berjast við nánast eintómar landsliðskonur um sæti í liðinu. „Það er mikil samkeppni en það gerir liðið bara betra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×