Skoðun

Við þurfum stuðning bæjarbúa

Mjög margir íbúar á Kársnesinu hafa gripið til þess ráðs að hengja borða utan á hús sín þar sem mótmælt er hugmyndum núverandi meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna um gríðarlega þéttingu byggðar á Kársnesinu með tilheyrandi umhverfisspjöllum og auknum umferðarþunga. Á einum borðanum stendur að umferðarþunginn muni aukast upp í átjánþúsund bíla á dag. Það er í takt við það sem hönnuðir þessa hugmynda hafa fullyrt.



Ég hef áður á þessum vettfagni lýst andstöðu minni og Frjálslynda flokksins við þessar hugmyndir varðandi Kársnesið en líka rifjað upp samskonar mál úr fortíð þessa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi. Samskonar deilumál hafa síðan fylgt þessum meirhluta til þessa dags. Ég nefni deilur um uppbyggingu við Lund, við Kópavogstúnið, Heiðmerkurmálið, Glaðheimamálið og nú síðast óánægju vegna hugmynda um nýtt skipulag fyrir Nónhæð. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er búinn að missa alla framtíðarsýn og veruleikaskyn. Trú þessa meirhluta er ekki lengur á einkaframtakið, ekki lengur á umhverfismál, ekki á íbúa lýðræði eða lýðræði yfir höfuð. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði trú á lýðræði, frelsi einstaklingsins og umhverfinu þá væri fólk í vesturbæ Kópavogs ekki að hengja borða utan á hús sín til varnar lýðræðinu, umhverfinu og rétti sínum sem einstaklingar. Hefði þessi meirhluti trú á einstaklingnum og umhverfi hans þá sæi hann til þess að gamalgróin strandlengja vesturbæjar Kópavogs fengi að halda sér, í takt við vilja íbúana. Hann sæi til þess að fólk sem keypti sér lóð eða íbúð á skipulögðu svæði ætti það ekki á hættu að fá í bakið að skipulaginu væri bara breytt, með ofbeldi, eins og er að gerast í vesturbæ Kópavogs.

Ég skora á alla Kópavogsbúa að setja sig í spor okkar sem búa í vesturbænum og styðja okkur gegn þessum áformum. Viljið þið fá átjánþúsund bíla á dag fram hjá bakgarðinum ykkar? Værir þú sáttur við að fá skyndilega fimmþúsund manna byggð í bakgarðinn hjá þér?

Nei, ekki ég heldur!



Höfundur er formaður Frjálslynda flokksins í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×