Viðskipti innlent

Strákarnir taka við af Sævari

Axel Gomez og Hermann Hauksson sjá um daglegan rekstur verslunarinnar. Axel er nú í Mílanó, þar sem hann treystir böndin við birgja.
Axel Gomez og Hermann Hauksson sjá um daglegan rekstur verslunarinnar. Axel er nú í Mílanó, þar sem hann treystir böndin við birgja. MYND/Anton

Hermann Hauksson og Axel Gomez, sem lengi hafa starfað í verslun Sævars Karls, eru meðal nýrra eigenda verslunarinnar og munu sjá um daglegan rekstur. Verslun Sævars er nú að sextíu prósenta hlut í eigu Vesturhafnar, eignarhaldsfélags Páls Kolbeinssonar, Hermanns, Axels og tengdra aðila. Fjörutíu prósenta hlutur er í eigu Arev N1, eignarhaldsfélags Jóns Scheving Thorsteinssonar.

„Við Axel berum sömu ábyrgð og sjáum um daglegan rekstur,“ segir Hermann Hauksson, einn nýrra eigenda verslunar Sævars Karls og starfsmaður til fjölda ára.

Hermann segir allar breytingar verða smávægilegar; til að mynda eigi að leggja enn meiri áherslu á kvenfatatísku og föt fyrir yngra fólk, auk þess sem stefnt sé að því að auka úrval fatnaðar frá ítalska framleiðandanum Prada. „Það er ekki hægt að bylta svona verslun. Reksturinn byggist á rótgrónu og viðkvæmu sambandi við okkar kúnna. Við munum halda merki Sævars á lofti. Hann verður okkur áfram innan handar og okkar mentor um ókomna tíð.“

Samkvæmt heimildum Markaðarins kostaði verslun Sævars um sex hundruð milljónir króna. Hermann segir þær hugmyndir ekki endilega fjarri lagi, en tekur þó fram að húsnæðið hafi verið dýrara en reksturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×