Skoðun

Kársnes skipulagt í sátt við íbúa

Boðað var til sérstaks aukafundar 8. ágúst í bæjarstjórn Kópavogs til þess eins að afgreiða tillögu um deiliskipulag með 105 íbúðum á einum skikanum þar. Til stóð að afgreiða tillöguna í bæjarráði í lok júlí, en fulltrúar Samfylkingarinnar þar lögðu til að henni yrði frestað til bæjarstjórnarfundar, enda er málið umdeilt í bænum og eðlilegt að það færi til umfjöllunar í fullskipaðri bæjarstjórn.

Einhverra hluta vegna töldu fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks málið svo brýnt að það gæti ekki beðið reglulegs fundar síðari hluta ágústmánaðar. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt þunga áherslu á að skipulag á endurbótasvæðum og við þéttingu byggðar, sé unnið í góðri samvinnu við íbúa og hagsmunaðila. Það er vissulega hagur bæjarins að eiga gott samstarf við þá sem vilja taka þátt í því með bæjaryfirvöldum að byggja upp svæði sem hafa úrelst eða gengið úr sér sem og við þéttingu byggðar.

Bæjaryfirvöld mega þó ekki afsala sér frumkvæði í slíkri skipulagsvinnu til hagsmunaaðila, þau verða að halda um stjórnvölinn með hag íbúa að leiðarljósi. Ég hygg að mikil samstaða ríki um það í bænum að taka til hendinni á Kársnesi og byggja þar upp að nýju. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram. Einstaka lóðareigendur hafa lagt fram ítrustu hugmyndir um nýtingu á reitum sínum en íbúar gera kröfu um að skipulagið sé í góðu samræmi við þá byggð sem fyrir er í vesturbænum. Verkefni bæjarstjórnar er að taka tillit til ólíkra sjónarmiða og finna leið sem sátt ríkir um. Slík vinna getur verið tímafrek en meiri líkur eru á að hún skili góðri niðurstöðu.

Kröfur íbúa snúast einkum um að svæðið verði skipulagt sem heild, að sannfærandi lausn liggi fyrir í umferðarmálum fyrir allan vesturbæinn, að höfn fyrir stærri skip verði lögð af og að samráð og samvinna verði höfð við íbúa um skipulag svæðisins. Þetta eru fullkomlega réttmætar og hógværar kröfur og í rauninni áhyggjuefni að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem fara með meirihluta í bæjarstjórn, skuli ekki gefa sér meiri tíma til að finna farsæla lausn á málinu, en kjósa fremur að keyra það í gegn án þess að ná sátt við íbúa.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×