Skoðun

Söfnum góðum minningum

Menningarnótt í miðborginni er nokkurs konar uppskeruhátíð eftir gott og veðursælt sumar. Hún er orðinn sá viðburður sem fáir vilja missa af því hún er aldrei eins; alltaf ný og óvænt.

Menningarnótt í miðborginni er orðinn langstærsti viðburður landsins og er farin að hafa aðdráttarafl langt út fyrir landssteinana.

Reykjavíkurborg hefur átt afar gott samstarf við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, bráðamóttöku LHS og björgunarsveitir um að hafa allan viðbúnað og þjónustu við gesti Menningarnætur sem besta. Enn og aftur hefur verið lögð sérstök áhersla á að huga að forvörnum og hafa Menningarnótt, ÍTR og Saman hópurinn lagst á eitt við að minna okkur foreldra á að sýna ábyrgð gagnvart börnunum og borginni okkar. Það er gott að minnast þess að foreldrar eru besta fyrirmyndin. En þrátt fyrir allan viðbúnað borgarinnar og öryggisaðila þá erum það við, þátttakendur hátíðarinnar, sem berum, þegar upp er staðið, ábyrgð á því að minningin okkar frá þessari Menningarnótt verði gleðileg.

Galdurinn við Menningarnótt er að hún er sjálfsprottin. Hún hefur þróast frá því að vera tiltölulega hógvær miðborgargleði yfir í að verða stærsta og vinsælasta hátíð ársins.

Þrátt fyrir stærðina og fjölda þátttakanda er ennþá bæði rými og áhugi fyrir hinu notalega og ljúfa. Þessi stemming er sérstaklega áberandi í dagskrá Menningarnætur í ár, vöfflukaffi, kósíhorn og hvíslileikur eru einmitt dæmi um slík atriði. Til að skapa þetta rými fyrir alla, jafnt stóra sem smáa, hefur dagskrársvæði hátíðarinnar stækkað - í allar áttir. Setningin er í Norræna húsinu, stórtónleikar Menningarnætur, Landsbankans og Rásar 2 á Miklatúni og flugeldasýning Orkuveitunnar úti á sundunum, en hjartað slær ennþá í miðborginni þar sem gestgjafar Menningarnætur bjóða okkur velkomin í tólfta sinn.

Verkefnisstjórn Menningarnætur óskar borgarbúum til hamingju með daginn og vonar að gestir hátíðarinnar njóti viðburðanna og samvistanna.

Sameinumst um að skapa góðar minningar á Menningarnótt.

Höfundur er í verkefnisstjórn Menningarnætur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×