Erlent

Mér var kalt, hikk

Bæjarfulltrúi í Nuuk á Grænlandi hefur verið úrskurðuð óverðug þess að sitja í bæjarstjórninni eftir að hún braust inn í hótel í bænum Sisiamiut, í janúar á síðasta ári. Jensína Berthelsen sagði sér til varnar, fyrir rétti, að henni hefði verið kalt, og að hótelið hefði verið læst. Hún hefði því ekki átt annarra kosta völ en að brjótast inn.

Nú er vitað og viðurkennt að það getur verið kalt á Grænlandi í janúar, og því gæti það talist sjálfsbjargarviðleitni að brjótast inn í hús til þess að bjarga lífi sínu. Það sem dómstóllinn gat ekki fallist á var að það hefði líka verið sjálfsbjargarviðleitni hjá Jensínu Berthelsen að drekka áfengi á hótelbarnum fyrir sextán þúsund krónur.

Það var talinn þjófnaður og Berthelsen var dæmd í eins árs skilorðsbundið fangelsi. Í kjölfar þess úrskurðaði kjörnefnd að hún væri þess ekki verðug að sitja í bæjarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×