Innlent

Olíuverðslækkanir ósennilegar

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið um tíu prósent í þessari viku og hefur ekki verið lægra í hálft annað ár. Ólíklegt er að íslenskir neytendur njóti lækkunarinnar vegna óhagstæðrar gengisþróunar.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið undanfarna mánuði en í júlí á síðasta ári fór verðið upp í 78 dali fatið. Nú er annað uppi á tengingnum því síðdegis var verðið á Norðusjávarolíu komið niður fyrir 55 dali fatið en sama magn af bandarískri hráolíu kostaði örlítið meira. Verðið hefur lækkað um nærri því tíu prósent undanfarna viku og hefur ekki verið lægra síðan sumarið 2005. Mikil hlýindi í Bandaríkjunum og góð birgðastaða þar ráða hér mestu um enda eru Bandaríkjamenn mestu olíuneytendur veraldar.

Stjórnendur íslensku olíufélaganna fylgjast grannt með þróuninni á mörkuðum erlendis en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar um verðbreytingar. Magnús Ásgeirsson, hjá Olíufélaginu, segir að miðað við hversu mikið krónan hafi lækkað gagnvart bandaríkjadal að undanförnu sé hins vegar ólíklegt að eldsneytisverð lækki hér á landi á næstunni, gengisbreytingarnar hafi með öðrum orðum étið upp lækkanirnar á heimsmarkaði.

Heimsmarkaðsverðið á olíu er svipað nú og fyrir hálfu öðru ári en þá kostaði lítrinn af bensíni og dísil hér á landi um það bil þremur krónum minna. Skýringin á þessu liggur að sögn olíufélaganna í gengisþróuninni en því er Félag íslenskra bifreiðaeigenda ekki sammála, að mati Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra þess er markaðsverðsins veigamesti þátturinn í verðákvörðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×