Erlent

Páfi fagnar nýjum stofnfrumum

Benedikt sextándi, páfi.
Benedikt sextándi, páfi. MYND/AP

Páfagarður fagnaði því í dag að fundist hefði ný leið til þess að rækta stofnfrumur án þess að nota fósturvísa. Í yfirlýsingu frá Páfagarði segir að það geti hjálpað til við læknisrannsóknir án þess að ganga í berhögg við kaþólska trú.

Bandarískir vísindamenn skýrðu frá því um síðustu helgi að þeir hefðu fundið stofnfrumur í legvatni, sem væru næstum því jafn öflugar stofnfrumur úr fósturvísum. Vísindamenn vona að hægt verði að gjörbylta læknavísindunum með notkun stofnfruma.

Kaþólska kirkjan lítur hinsvegar á fósturvísa sem manneskjur allt frá getnaði, og telur að með því að sækja stofnfrumur þangað sé verið að eyða lífi. Talsmaður kirkjunnar sagði að ef hægt væri að sækja stofnfrumur í legvatn, eða annað þar sem lífi væri ekki eytt, hefði kirkjan ekkert við það að athuga. Hún væri alls ekki á móti öllum stofnfrumurannsóknum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×