Erlent

Börnum enn rænt til hernaðar

Ungur hermaður í Afríku.
Ungur hermaður í Afríku. MYND/GETTY IMAGES

Hundruð þúsunda barna eru enn neydd til þess að berjast í herjum og skæruliðasamtökum víðsvegar í heiminum. Bresku samtökin Björgum börnunum segja að haldið sé áfram að ræna börnum til hernaðar í að minnsta kosti þrettán löndum, frá Afganistan til Úganda.

Tíu ár eru liðin frá því samþykkt var á alþjóðlegri ráðstefnu í Suður-Afríku að lágmarksaldur hermanna skyldi vera átján ár, og ríkisstjórnir hvattar til þess að framfylgja þeirri ákvörðun. Það hefur ekki gengið eftir. Flest börn eru neydd til hernaðar í Afríku og Asíu, en einnig eru dæmi um það í Suður-Ameríku.

Börnin eru oft fyrst tekin sem burðardýr og þá allt niður í átta ára gömul. Þau eru svo látin berjast og drepa þegar þau stækka. Telpur eru oft notaðar sem kynlífsþrælar fyrir fullorðna hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×