Lögreglan á Akureyri hafði í nótt afskipti af manni og konu, þar sem þau voru í Hörgárdal á leið til Akureyrar. Grunur vaknaði um að þau gætu verið með fíkniefni í fórum sínum og við leit í bifreiðinni fannst böggull, sem talinn er geyma rúm 700 grömm af hassi.
Fólkið var handtekið og hefur verið yfirheyrt á lögreglustöðinni á Akureyri í dag. Þeim yfirheyrslum er ekki lokið þegar þetta er skráð, og ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir fólkinu. Um er að ræða par á þrítugsaldri og hafa bæði komið við sögu lögreglu áður.