Innlent

Samningur við Eir stenst ekki lög

Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir minnihluta afar ósáttan við vinnubrögð meirihlutans.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir minnihluta afar ósáttan við vinnubrögð meirihlutans. MYND/Valgarður Gíslason

Minnihluti borgarstjórnar gagnrýnir vinnubrögð meirihluta varðandi uppbyggingu menningarmiðstöðvar í Spöng. Málið var tekið fyrir í borgarráði í dag. Fyrirætlanir meirihlutans um að semja beint við Eir um byggingu menningarmiðstöðvarinnar án útboðs standast ekki sveitastjórnarlög. Þetta segir í bókun sem fulltrúar minnihluta í borgarstjórn lögðu fram í ráðinu í dag.

Fimm mánuðir eru liðnir eru frá því formaður Borgarráðs undirritaði viljayfirlýsingu um byggingu menningarmiðstöðvarinnar, án þess að fá fyrir því samþykkt borgarráðs. Formaðurinn undirritaði yfirlýsinguna því Borgarstjóri taldist vanhæfur í málinu vegna formennsku í stjórn Eirar. Síðan hefur verið unnið með Eir að hönnun og teikningum, þrátt fyrir að ekki hafi verið veitt heimild til þess.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er borgarráð fjölskipað stjórnvald og fer ásamt borgarstjóra með framkvæmdastjórn borgarinnar.

Í yfirlýsingu frá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarfulltrúa minnihluta segir að farið sé á bak við borgarráð og í beina samninga við Eir um uppbyggingu menningarmiðstöðvarinnar. Opinberum aðilum sé skylt að bjóða út slíkar framkvæmdir og leita hagstæðustu tilboða. Hún segir svör Borgarstjóra fela í sér að leitað sé leiða til að semja beint við Eir án útboðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×