Viðskipti erlent

Samstarfsmaður Blacks nær sáttum

David Radler, einn af fyrrum samstarfsmönnum kanadíska fjölmiðlajöfursins fyrrverandi, Conrad Blacks, sem eitt sinn stýrði einni af stærstu fjölmiðlasamsteypum heims, sættist á að greiða 28,7 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 1,9 milljarða íslenskra króna, til bandaríska yfirvalda vegna bókhaldssvika.

Þá mun Radler sömuleiðis verða eitt af lykilvitnunum gegn Black.

Black er ásamt þremur fyrrum samstarfsmönnum ásakaður um að hafa misnotað allt að 85 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 5,7 milljarða íslenskra króna, í eigin þágu, framið bókhaldssvik og logið að hluthöfum fjömiðlasamsteypunnar Hollinger International árið 2000. Samsteypan átti um tíma nokkur af stórblöðum Bretlands, þar á meðal The Daily Telegraph og The Sunday Telegraph.

Black er fæddur í Kanada en afsalaði sér ríkisborgararétti til að taka við lávarðatign í Bretlandi árið 2001. Hann hefur sagst vera að íhuga að sækja um kanadískan ríkisborgararétt að nýju.

Sakborningarnir hafa ávallt lýst yfir sakleysi sínu í málinu.

Réttarhöld í máli Blacks hefjast á mánudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×