Viðskipti erlent

Enn hækkar hráolíuverðið

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um rúman bandaríkjadal á tunnu í dag vegna aukinnar spennu á milli Bandaríkjamanna og Írana. Olíuverðið hefur verið á snarpri uppleið eftir að íranskir hermenn handtóku 15 breska sjóliða á Persaflóa á föstudag. Munu þeir, að sögn íranskra yfirvalda, hafa verið innan íranskrar landhelgi.

Og fleira kemur til því Vesturlöndin hafa deilt hart á Írana vegna kjarnorkuáætlunar stjórnvalda. Ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að beita refsiaðgerðum á Írana og þvinga þá til að láta af áætlunum sínum.

Hráolíuverðið hækkaði um 1,02 dali á tunnu í viðskiptum í Asíu í morgun og stendur tunnan nú í 63,95 dölum. Brent Norðursjávarolía hækkaði um heilan 1,21 dal og stendur í 65,81 dal á tunnu.

Til skamms tíma í gær fór olíuverðið í 68 dali á tunnu á markaði í Bandaríkjunum en verð sem þetta hefur ekki sést síðan í nóvember í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×