Íslenskri ferðaþjónustu stafar mun meiri hætta af hvalveiðum en stóriðjuuppbyggingu, segir forstjóri Icelandair. Ríkisstjórnir víða um heim mótmæla enn hvalveiðum Íslendinga.
Í dag fór fram aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar. Þar kom fram að lýst er eftir ímynd landsins. Hana vantar algjörlega og voru ráðstefnugestir á einu máli um að ekki dygði eitt og sér að einblína á náttúruna í þeim efnum.
Í ræðu samgönguráðherra á fundinum kom fram að rekstrarskilyrði ferðaþjónustu eru góð hér á landi og kom fram að dæmi eru um 18-falda veltu fyrirtækja á skömmum tíma. Veikleikarnir eru sem dæmi háir stýrivextir, örar gengissveiflur og árstíðabundin munur á umsvifum.
Nokkur umræða fór fram um hvalveiðar og kemur ef till vill einhverjum á óvart að forstjóri Icelandair telur að ferðaþjónustunni hér stafi mun meiri ógn af hvalveiðum en hvort álver rísi víða um land.