Viðskipti erlent

Tilboð í Sainsbury fyrir vikulok

Ein af verslunum bresku matvörukeðjunnar Sainsbury.
Ein af verslunum bresku matvörukeðjunnar Sainsbury. Mynd/AFP

Fjárfestahópurinn CVC mun leggja fram að minnsta kosti 10 milljarða punda, jafnvirði um 1.300 milljarða íslenskra króna, yfirtökutilboð í bresku verslanakeðjuna Sainbury fyrir lok þessarar viku. Þetta staðhæfðu breskir fjölmiðlar um helgina.

Gangi þetta eftir mun CVC greiða á bilinu 570 til 580 pens fyrir hvern hlut í Sainsbury, sem er þriðja stærsta verslanakeðja Bretlands.

Breska blaðið Financial Mail sagði miklar líkur á að fjárfestahópurinn sættist á að greiða einn milljarð punda, jafnvirði 130 milljarða íslenskra króna, í lífeyrissjóð verslanakeðjunnar.

Fjölmargir fjárfestar, þar á meðal Baugur og breska verslanakeðjan Asda, önnur stærsta verslanakeðja Bretlands, hafa verið orðuð við kaup og hugsanlega yfirtöku á Sainsbury. Svo hefur ekki reynst vera en Baugur festi sér lítinn hlut í keðjunni í gegnum breska fjárfestingafélagið Unity Investments til skamms tíma í kjölfar orðróms um yfirvofandi yfirtöku á Sainsbury.

Breska yfirtökunefndin krafðist þess í síðasta mánuði að fjárfestar tækju ákvörðun um næstu skref varðandi Sainsbury fljótlega eða hættu yfirtökuáformum sínum ella. Nefndin setti fjárfestum lokafrest til að leggja fram tilboð í Sainsbury og gildir það til 13. apríl næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×