Erlent

Sjóliðunum sleppt á morgun

Þrír sjóliðanna í sjónvarpsupptöku sem sýnd var í íranska sjónvarpinu.
Þrír sjóliðanna í sjónvarpsupptöku sem sýnd var í íranska sjónvarpinu. MYND/AFP

Ráðgjafi Mahmoud Ahadinejad forseta Írans sagði í dag að bresku sjóliðunum 15 verði sleppt úr haldi á morgun. Reuters fréttastofan hefur eftir Mojtaba Samareh-Hashemi að gíslarnir verði látnir lausir í breska sendiráðinu í Teheran á morgun og fari beint til London. Hann sagði að Bretarnir væru nú undir umsjón utanríkisráðuneytisins.

Bresk stjórnvöld fögnuðu í dag ákvörðun íranskra yfirvalda að sleppa sjóliðunum sem verið hafa í haldi í Íran frá 23. mars. Mahmoud Ahmadinejad tilkynnti á fréttamannafundi í dag að sjóliðunum yrði sleppt og að farið yrði með þá á flugvöllin í Teheran og þeim flogið heim.

Eftir því sem íranska ríkissjónvarpið greindi frá fögnuðu sjóliðarnir gríðarlega þegar þeir fengu fréttirnar og þá er haft eftir fjölskyldu eins sjóliðanna á vef BBC að þetta sé besta gjöf sem hún hafi getað fengið.

Deilur Írana og Breta um sjóliðana hafa snúist um það hvort þeir hafi verið á írönsku eða íröksku hafsvæði þegar strandgæsla Írans handsamaði þá 23. mars. Ahmadinejad hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá breskum stjórnvöldum vegna málsins en við því hafa þau ekki orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×