Viðskipti erlent

Óbreyttir stýrivextir í Bretlandi

Englandsbanki.
Englandsbanki.

Englandsbanki ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum. Greinendur voru ekki á einu máli hver næstu skref Englandsbanka yrðu og útilokuðu ekki 25 punkta hækkun. Mjög líklegt er talið að stýrivextir verði hækkaðir um fjórðung úr prósenti í næsta mánuði til að halda aftur af verðbólgu sem hækkaði á milli mánaða.

Nokkurrar óvissu gætti um ákvörðun peningamálanefndar í gær. Nefndin ákvað í síðasta mánuði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum og byggði ákvörðun sína á því að verðbólga hafi lækkað úr þremur prósentum í 2,7 prósent í janúar. Í síðasta mánuði hækkaði verðbólga hins vegar um 0,1 prósentustig á milli mánaða og töldu nokkrir greinendur í vikunni, að bankinn myndi hækka stýrivexti í dag.

Fleiri greinendur töldu í vikunni að þar sem verðbólga er enn nokkuð yfir 2 prósenta verðbólgumarkmiði Englandsbanka muni bankinn hækka stýrivexti í næsta mánuði og fari þeir þá í 5,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×