Erlent

Dvelja lengur á vígstöðvum

Jónas Haraldsson skrifar
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. MYND/AP

Bandarískir hermenn í Írak og Afganistan þurfa framvegis að vera 15 mánuði í stað eins árs á vígstöðvunum samkvæmt nýjum reglum sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sett.

Markmiðið með þessum breytingum er að tryggja að nægur mannskapur verði í löndunum til að takast á við þau erfiðu verkefni sem Bandaríkjaher fæst við. Í báðum löndum stendur yfir hatrömm barátta við uppreisnarmenn. Nýju reglurnar gera jafnfram ráð fyrir að hermenn fái að minnsta kosti eins árs frí frá bardögum þegar þeir snúa heim.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi í gær að mikið álag væri á bandaríska hernum vegna aðgerðanna í Írak og Afganistan en stjórnmálaskýrendur segja að með nýju reglunum sé verið að forðast að herinn lendi í vandræðum á næstu árum.

Alls eru um 145 þúsund bandarískir hermenn í Írak og ná reglurnar til þeirra og þess hóps sem senda á til Íraks á næstunni. Hingað til hafa bandarísk yfirvöld átt í erfiðleikum við að standa við reglur sínar um dvöl hermanna á vígstöðvum. Gates sagði þetta líka vera til þess að koma á stöðugleika fyrir hermennina sjálfa og fjölskyldur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×