Erlent

Stjórn Alþjóðabankans íhugar örlög Wolfowitz

Jónas Haraldsson skrifar
Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans.
Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans. MYND/AFP
Stjórn Alþjóðabankans fundaði í morgun um örlög forseta hans, Paul Wolfowitz. Háværar raddir heyrðust um að hann ætti að segja af sér en hann hækkaði stöðu og laun konu sem hann átti í sambandi við. Hann hefur þegar beðist afsökunar á hegðun sinni og sagt að hann muni hlíta niðurstöðu stjórnarinnar, sama hver hún verði.

Shaha Riza, konan sem hann átti í sambandi við, var færð í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna þegar Wolfowitz var gerður að forseta Alþjóðabankans. Engu að síður hélt hún launum frá bankanum og fékk verkefni hjá honum. Starfsfólk í bankanum er Wolfowitz sárreitt en hann hefur leitt baráttu gegn spillingu innan bankans.

Stjórn Alþjóðabankans frestaði í morgun ákvörðun um hvað ætti að gera í málinu. Engu að síður sagði stjórnin að ákvörðun yrði tekin fljótlega. Í ljós kom á fundum stjórnarinnar í dag að stöðu- og launahækkunin var hvorki samþykkt af siðferðisnefnd bankans né formanni stjórnar hans. Wolfowitz gegndi stöðu aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna áður en hann var skipaður forseti Alþjóðabankans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×