Viðskipti erlent

Tesco skilar metári

Áætlaður hagnaður Tesco fyrir síðasta ár nemur rúmum 2,5 milljörðum punda, jafnvirði 325 milljörðum íslenskra króna. Gangi þetta eftir jafngildir það að félagið hafi hagnast um 624 þúsund krónur á hverri einustu mínútu í fyrra.

Hagnaðurinn hefur aldrei verið meiri gangi áætlanir eftir. Þessi stærsta verslanakeðja Bretlands skilar afkomutölum sínum á morgun og er gert ráð fyrir að hagnaðurinn hafi aukist um 12 prósent á milli ára.

Tesco hefur sætt harðri gagnrýni fyrir einokunartilburði á breska matvörumarkaðnum en fyrirtækið hefur rétt rúmlega 31 prósents markaðshlutdeild. Er fyrirtækinu gefið að sök að bera ábyrgð á því að fjöldi verslana víða um land hafi þurft að hætta starfsemi vegna ofríkis Tesco. Forsvarsmenn Tesco standa hins vegar fast á því að mikil samkeppni ríki á breska matvörumarkaðnum, að sögn breska ríkisútvarpsins, sem bætir við að netverslun í Bretlandi sé í mikilli sókn.

Tesco rekur rúmlega 1.400 verslanir í Bretlandi og hefur hafið sókn inn á nýja markaði, svo sem í Bandaríkjunum og Kína.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×