Viðskipti erlent

Olíuverðið hækkar eftir lækkanir

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði á helstu fjármálamörkuðum í dag. Helsta ástæðan er sú að talið er að olíubirgðir í Bandaríkjunum hafi minnkað á milli vikna.

Hráolíuverðið lækkaði talsvert í gær eftir 3,5 prósenta hækkun á verðinu síðustu daga í kjölfar ótta við að óeirðir í Nígeríu í tengslum við forsetakosningar þar í landi myndi koma niður á olíuframleiðslunni þar. Nígería er stærsta olíuframleiðsluríki Afríku og hafa sveiflur á oliuframleiðslu þar í landi mikil áhrif á heimsmarkaðsverð á svartagullinu. Svo virðist ekki hafa verið raunin. Ástæðan fyrir lækkuninni í gær var hins vegar hagnaðartaka fjárfesta.

Bandaríska orkumálaráðuneytið birtir vikulega skýrslu sína um olíubirgðastöðu landsins síðar í dag. Líklegt er talið að olíubirgðirnar hafi dregist saman um 1,28 milljónir tunna.

Verði þetta raunin hafa olíubirgðir í Bandaríkjunum dregist saman í ellefu vikur í röð.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í júní, hækkaði um 26 sent á markaði í dag og fór í 64,84 dali á tunnu en verð á Brent Norðursjávarolíu, sem afhent verður á sama tíma, hækkaði um 49 sent og fór í 67,65 dali á tunnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×